Sitkalúsafaraldur

Sígræn tré eru ómissandi í umhverfi okkar, sérstaklega að vetrarlagi þegar allur annar gróður er í dvala og gráir litatónar ríkjandi allt um kring. Greni og furutegundir hafa sýnt það og sannað á síðustu áratugum að íslenskt veðurfar hentar þeim ákaflega vel, margar þessara tegunda hafa nú þegar náð að viðhalda sjálfum sér í íslenskri náttúru með sáningu. Sitkagreni er sú grenitegund sem vex hvað hraðast á Íslandi og hefur fyrir þeirra hluta sakir náð miklum vinsældum því íslensk þjóðarsál krefst árangurs strax, líka í ræktun. Sitkagrenið nær að fjölga sér með sáningu hérlendis og eru nú til að minnsta kosti annarrar kynslóðar Íslendingar af þessari duglegu tegund.

Ræktun sitkagrenis hefur gengið ljómandi vel frá upphafi en þó hafa dunið yfir áföll sem hafa velgt ræktendum undir uggum. Í vorhretinu í apríl, 1963, þegar snöggkólnaði eftir langvarandi hlýindi á sunnan- og vestanverðu landinu, fór sitkagreni mjög illa. Mikið af plöntum drapst því þær voru komnar vel af stað í vöxt þegar ósköpin dundu yfir og þær sem lifðu af voru margar illa farnar af frostskemmdum. Önnur áföll má rekja beint til sitkalúsarinnar.

Sitkalúsin barst líklega fyrst hingað til lands með jólatrjám frá Danmörku haustið 1959, hugguleg jólagjöf frá frændum okkar það árið. Hún breiddist út um landið í rólegheitum en svo skall fyrsti faraldurinn á árið 1964. Síðan þá hafa nokkrir faraldrar geisað og eiga þeir það sammerkt að þeir eiga sér stað á mildum vetrum. Nú, vorið 2003, horfum við upp á það að sitkagrenitré víðs vegar um land eru mjög illa farin af völdum lúsarinnar enda hefur þessi vetur verið sá hlýjasti frá því mælingar hófust.

Sitkalús fjölgar sér með meyfæðingu, móðurlúsin fæðir lifandi unga. Lúsin nær fullum þroska á 2-3 vikum og fer strax að fæða unga eftir að fullum þroska er náð. Sitkalús er yfirleitt vængjalaus og situr sem fastast á plöntunni sem hún fæddist á en þegar líður á sumarið fær hluti lúsanna vængi og geta þær þá numið land á nýjum trjám. Lúsin fjölgar sér hratt á vorin en þegar vöxtur hefst í grenitrjánum fækkar lúsinni verulega, ýmis dýr sem lifa á lúsum er komin á kreik auk þess sem efnasamsetning sáldæðavökva trjánna breytist verulega í vaxtarbyrjun og virðist sú samsetning ekki henta lúsinni alls kostar vel. Þegar líður á sumarið og hitastig hækkar sækja lýsnar hins vegar í sig veðrið og fara að fjölga sér af krafti og er talið að stofninn sé einna stærstur á haustin.

Sitkalús er harðgert kvikindi og lifir vel af í mildum vetrum. Hún heldur áfram að fjölda sér þrátt fyrir það að hitastigið fari niður fyrir frostmark og hefur verið sýnt fram á það að til að drepa lúsina niður þarf hitastig að fara niður í –15°C og haldast þar í smá tíma. Veðurfar eins og við höfum horft upp á undanfarna vetur hefur því verið mjög lúsvænt, hitastigið hefur varla farið niður fyrir frostmark, verið kringum núllið meira og minna allan veturinn og lýsnar því lifað, hressar og sprækar.

Eins og aðrar blaðlýs nær sitkalúsin sér í næringu með því að stinga sérstökum rana inn í sáldæðarnar í barrnálunum og sjúga sætan sáldæðavökvann. Þær gefa frá sér sérstakt efni sem heldur stungusárinu opnu. Sitkalús sækir einkum á gamlar nálar, lætur þær nýju í friði og því sjáum við skemmdirnar aðallega inni í krónu trjánna. Nálarnar verða fyrst gular og síðar rauðbrúnar en þær geta haldist lengi á trénu áður en þær detta af. Nálar sem eru orðnar rauðleitar verða aldrei grænar aftur og því getur farið svo að lúsin nái að hreinsa meira og minna allar barrnálarnar af trjánum, nema þær sem eru á yngstu sprotunum.

Sitkalús nær í fæstum tilfellum að ganga af sitkagreninu dauðu en oft eru plönturnar ansi tuskulegar eftir svona árás. Vöxtur trjánna verður miklu minni en ella enda hefur tréð miklu færri laufblöð til að sjá um ljóstillífun. Garðeigendur sem kanna skemmdir trjáa sinna þurfa að athuga hvort vaxtarbrumin á endum greinanna séu í lagi, ef svo er getur tréð náð sér aftur en það tekur nokkur ár fyrir það að verða aftur þétt og fallegt.

Það er blóðugt að horfa aðgerðarlaus upp á stórar og fallegar greniplöntur skipta litum úr dökkgrænu yfir í ryðbrúnt. Þess vegna grípa margir til þess ráðs að úða gegn lúsinni. Hægt er að nota venjulegt lúsalyf eins og Permasect en fyrir þá sem kjósa vistvænar aðferðir er að koma á markað olía sem virkar ágætlega á lúsina og er umhverfisvænni en lúsalyfin. Þriðja leiðin er svo auðvitað sú að biðja veðurguðina um brunagadd í eins og vikutíma að haustlagi, það kemur lúsunum örugglega fyrir kattarnef og hefur ekki í för með sér úðun efna af neinu tagi, nema kannski salts á göturnar...

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur

. Gróðrarstöðin Storð | Ferjuvegur 1 | 806 Selfoss | Sími 564-4383 | stord@stord.is