Íslenskar plöntur í garða

Útlenskir hlutir hafa löngum þótt eftirsóknarverðir á Íslandi. Þannig hafa ullarpeysur keyptar í erlendum búðum þótt mikið huggulegri en íslenska lopapeysan, útlenskar gallabuxur hafa fyrir löngu leyst vaðmálsbrækurnar af hólmi og í stað íslensks brennivíns dreypa menn nú á áfengum berjasafa ættuðum frá suðlægari löndum, vilja jafnvel helst geta keypt þennan berjasafa í matvörubúðum, eins og gerist og gengur í útlöndum. Íslensk garðyrkja hefur notið góðs af þessari ásókn okkar í erlend áhrif. Innlend flóra okkar er fremur fábreytileg og þess vegna hafa Íslendingar í gegnum tíðina verið ákaflega duglegir við það að flytja inn erlendar plöntutegundir til að prófa þær við íslenskar aðstæður. Margar þessara tegunda hafa fyrir löngu áunnið sér heiðurssess í íslenskum görðum og sóma sér þar vel. Þegar betur er að gáð kemur þó í ljós að margar tegundir í innlendu flórunni eiga fullt erindi í garða landsmanna. Íslensku trjátegundirnar, ilmbjörk, ilmreynir og einir hafa alla tíð verið vinsælar til notkunar í garða, það má sennilega fullyrða það að ekki fyrirfinnist sá garður á landinu sem ekki inniheldur að minnsta kosti eina af þessum trjátegundum. Fjalldrapi hefur einnig verið notaður nokkuð í garða en þó í minna mæli en fyrrnefndu tegundirnar. Garður sem eingöngu er prýddur trjám og runnum verður hins vegar leiðigjarn til lengdar og nauðsynlegt að hressa eilítið upp á litadýrðina með fjölærum jurtum og jafnvel sumarblómum. Innan íslenskrar flóru má finna ákaflega fallegar fjölærar blómjurtir sem sumar hverjar hafa verið notaðar í garða um langa hríð en aðrar notaðar minna en efni standa til, verður minnst á nokkrar þeirra hér á eftir.

Eyrarrós, Epilobium latifolium, er fjölær, dálítið skriðul 20 – 30 cm há planta sem vex gjarnan á áreyrum. Blóm eyrarrósarinnar eru mjög stór, rósrauð og skrautleg. Hún blómstrar seinni hluta sumars og myndar þá oft glæsilegar rósrauðar breiður. Þetta er fyrirtaks garðplanta, hún vex best í fremur sendnum, rýrum jarðvegi og getur þar dreift talsvert úr sér. Hún sáir sér dálítið en það er auðvelt að hafa hemil á henni ef þess er þörf.

Steindepla, Veronica fruticans, er einnig fjölær, mjög lágvaxin eða jarðlæg planta sem er algeng um land allt. Blóm steindeplunnar eru í íslensku fánalitunum, himinblá utantil en hvít í miðjunni og aðskilur rauður hringur bláa og hvíta litinn. Steindeplan er mjög smávaxin og lætur ekki mikið yfir sér en blómgun hennar er mjög falleg. Hún hentar vel til notkunar í steinhæðabeð þar sem sólar nýtur og jarðvegur er fremur rýr.

Bláklukka, Campanula rotundifolia, hefur verið notuð í garða um áratugaskeið, aðallega sú bláa en einnig hvítt afbrigði bláklukkunnar sem er fremur sjaldgæft. Bláklukkan myndar um 20-30 cm háa blómstöngla og á endum stönglanna koma svo hinar himinbláu, lútandi klukkur. Blómgunartíminn er í júlí. Bláklukka er, eins og svo margir ættingjar hennar af bláklukkuættinni, nokkuð skuggþolin og hentar því til dæmis vel til notkunar undir birkitrjám í görðum.

Vetrarblóm, Saxifraga oppositifolia, er af ættkvísl steinbrjóta og er fjölær, lágvaxin planta með sígræn lítil laufblöð. Vetrarblómið blómstrar eldsnemma á vorin, oftast í apríl-maí en í góðu vori stundum í mars. Blómin eru fremur smá, fallega bleik á litinn og er blómgunin yfirleitt svo mikil að plantan verður þakin blómum. Þessar bleiku blómabreiður teygja sig jafnvel upp úr snjónum á vorin og minna á það að vorið er á næsta leiti. Vetrarblómið þarf fremur rýran jarðveg og hentar ákaflega vel í steinabeð.
Ljósberi, Lychnis alpina, er um 20 cm hár með blöð í stofnhvirfingu. Blómin eru í ýmsum tilbrigðum við bleikt, allt frá hér um bil hvítu yfir í dökkbleikan lit. Þau eru nokkur saman í þéttum hnapp á enda blómstönglanna og er blómgunartíminn í júlí. Ljósberi er ljóselskur og þolir allvel þurrk, hentar því vel í sendinn og rýran jarðveg í görðum.

Engjarós, Potentilla palustris, er af ættkvísl muranna. Hún er um 15-30 cm há og vex einna best í rökum jarðvegi. Blóm engjarósarinnar eru dökkbleik yfir í dumbrautt og þess vegna er þetta verðmæt garðplanta, blómliturinn er ekki mjög algengur. Blöðin eru ljósgræn með gráum blæ og ekki síður til skrauts en blómin, einnig eru stönglarnir rauðleitir sem eykur enn á skrautið. Engjarós er ekki mikið notuð í garða enn sem komið er en hún er fyllilega þess virði að prófa hana.

Auðvitað eru mikið fleiri íslenskar tegundir hentugar í garða en þeim verða ekki gerð skil í þetta sinn. Nú er bara um að gera að heimsækja næstu gróðrarstöð, næla sér í íslenskar plöntur og gróðursetja þær í görðum fyrir veturinn því haustbið er sérlega góður tími til gróðursetningar.

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur

. Gróðrarstöðin Storð | Ferjuvegur 1 | 806 Selfoss | Sími 564-4383 | stord@stord.is