Fjölærar þekjuplöntur

Fjölærar plöntur eru til margra hluta nytsamlegar. Með fjölærum plöntum er hér átt við plöntutegundir með jurtkennda stöngla. Flestar fjölæringar safna sér vetrarforða í rætur sínar og falla niður yfir veturinn en sumar tegundir eru sígrænar og halda blöðunum allan veturinn. Úrval fjölærra plantna er margfalt meira en trjáa og runna. Talið er að gróðrarstöðvar á Íslandi séu með á bilinu 1500-2000 tegundir og sortir af fjölæringum til sölu árlega. Blómgunartími þessara plantna er frá því snemma á vorin, í apríl-maí, allt fram í október á haustin. Hver tegund stendur þó ekki lengi í blóma, frá því fyrstu blómin birtast og þar til síðustu blómin falla líða kannski 3-5 vikur. Þess vegna er það alveg tilvalið að velja saman tegundir með misjafnan blómgunartíma og fá þannig líf og liti í garðinn allt sumarið. Blóm fjölæringanna eru í öllum regnbogans litum og af öllum stærðum og gerðum.

Notkun á fjölærum plöntum lýtur dutlungum tískunnar eins og svo margt annað. Á tímabili vildi almenningur helst ekkert nema tré og runna í garða sína en slíkur gróður hefur skemmri blómgunartíma en fjölæringar og býður upp á færri blómliti. Áhugi fólks á fjölærum plöntum er alltaf að aukast því úrvalið af harðgerðum tegundum er mikið og gott. Notkunarmöguleikarnir á fjölæringum eru miklir. Þá má nota í blönduð beð með trjágróðri, sem stakstæðar plöntur, í steinhæðir, við tjarnir og svo mætti lengi telja. Í raun má segja að hægt sé að finna fjölærar plöntur fyrir allar aðstæður.

Á síðustu árum hafa augu manna opnast fyrir því að nota fjölæringa til að þekja beð í stað ýmiss konar þakningarefna eins og kurls og sands. Mjög margar tegundir fjölærra plantna mynda breiður þar sem þær fá að vaxa óáreittar og er tilvalið að nýta sér þessa eiginleika þeirra. Þakningarefni eins og kurl og sandur eru frekar dýr og þarf að bæta á þau reglulega, sandurinn sígur niður í jarðveginn en kurlið brotnar niður smám saman. Stofnkostnaður við það að nota fjölærar plöntur til þakningar er án efa mikill en á móti kemur að slíkt beð þarf ekki mikið viðhald. Mikilvægt er að velja tegundir sem henta fyrir viðkomandi aðstæður, til dæmis er heppilegt að nota skuggþolnar tegundir til að þekja trjá- og runnabeð en sólelskar tegundir í beð á bersvæði.

Jarðvegsbætandi áhrif
Fjölærar þekjuplöntur binda jarðveginn með rótakerfi sínu, jafnframt því sem þær þekja hann. Við þetta dregur úr rakasveiflum í jarðveginum og skilyrði fyrir allan gróður verða betri. Á rýrum jarðvegi má notast við tegundir af ertublómaætt, s.s. fjallagand (Thermopsis montana), klettasmára (Trifolium parryi) og skógarsmára (Trifolium medium) o.fl. Þessar tegundir hafa jarðvegsbætandi áhrif því þær vinna köfnunarefni úr andrúmsloftinu og þurfa ekki köfnunarefnisáburð. Fjölærar plöntur falla flestar niður á haustin og blöðin og stönglarnir rotna smám saman. Við það eykst innihald lífrænna efna í jarðveginum og þar með næringarforði plantnanna.

Áhrif á illgresi
Í efstu jarðvegslögunum eru heilmikill forði af illgresisfræjum. Fræin geta lifað í jarðveginum árum saman eða þar til skilyrði til spírunar verða heppileg. Með því að þekja jarðveginn má koma í veg fyrir spírun fræjanna og hafa menn notfært sér þetta um árabil. Trjákurl, sandur, plastdúkar, möl og ýmislegt fleira hefur verið notað til þakningar með ágætis árangri. Þessi efni eru hins vegar ekki mikið fyrir augað. Það er óneitanlega fallegra að horfa á breiðu af fallegum blómum en gráa grjótbreiðu. Laufþekja fjölærra plantna í breiðum verður það þétt með tímanum að illgresisfræin fá ekki nauðsynlega birtu til spírunar. Þær fáu illgresisplöntur sem komast á legg verða enn fremur undir í samkeppninni við þakningarplönturnar um næringarefni og birtu. Sýnt hefur verið fram á þetta í ýmsum tilraunum í nágrannalöndum okkar en þar eru menn komnir vel á veg með notkun fjölæringa til þakningar.

Notkun eiturefna
Í baráttunni við illgresið hafa menn fundið upp margar gerðir af eiturefnum sem drepa illgresi eða koma í veg fyrir að fræ illgresisins geti spírað. Spírunarhindrandi efni eru gjarnan notuð í trjábeð en efnin brotna niður á löngum tíma, 2-4 árum. Nú á tímum umhverfisverndar og grænnar hugsunar þykir það ekki góð latína að nota eiturefni heldur er almenningur hvattur til að nota náttúruvænni aðferðir í ræktun sinni. Jafnvel eru til fjölærar plöntur sem virðast hrekja í burtu meindýr eins og blaðlús. Talið er að kryddjurtin piparmynta (Mentha x piperita) hafi þessi áhrif en hún er mjög góð þekjuplanta.

Val á tegundum
Við val á hentugum tegundum þarf að huga að ýmsum atriðum. Fyrst og fremst þarf að huga að ræktunarskilyrðum á útplöntunarstaðnum, svo sem rakastigi jarðvegs, birtu og skjóli. Ef þekjuplönturnar eiga til dæmis að þekja trjábeð þarf að velja skuggþolnar, harðgerðar og nægjusamar plöntur. Birtan er af skornum skammti og samkeppni við rætur trjáplantnanna um næringu mikil. Einnig er gott að hafa í huga að þekjuplönturnar þurfa ekki endilega að vera jarðlægar og allar af sömu hæð. Það er einmitt mun skemmtilegra að blanda saman misháum tegundum með misjafnan blómgunartíma. Til eru plöntur sem eru fyrirtaks þekjuplöntur þótt þær séu hávaxnar, t.d. útlagi (Lysimachia punctata), mararljós (Lythrum salicaria) og silfurhnappur (Achillea ptarmica).
Tegundir sem henta á skuggsælum stöðum:

Anganmaðra (Galium odoratum) – Anganmaðra blómstrar litlum hvítum blómum í krönsum. Hún dreifir úr sér með skriðulum jarðstönglum og myndar fljótt breiður. Plantan þarf frekar rakan jarðveg og þolir skugga mjög vel.
Dalalilja (Convallaria majalis) – Drefir sér með skriðulum jarðstönglum. Blaðfalleg planta, blómstrar hvítum lútandi blómum í maí-júní. Hún er skuggþolin og harðgerð en blómstrar stundum ekki mikið.
Dílatvítönn (Lamium maculatum) – Blöðin eru græn með hvítum skellum og blómin eru bleik, nokkur saman í krönsum á stönglunum. Tegundin er mjög skriðul og þolir talsverðan skugga. Hún er mjög harðgerð.
Dvergavör (Ajuga reptans) – Til eru ýmsar sortir af þessari blaðfallegu tegund. Blómin eru blá, nokkur saman í uppréttum klösum en blöðin eru mismunandi á lit eftir sortum. Sortin ‘Atropurpurea’ er með fallega dökkrauðum blöðin, ‘Burgundy Glow’ er með rauð- og hvítskellóttum blöðum og ‘Variegatum’ er með hvítflekkóttum blöðum. Dvergavör er all-harðgerð og drefir sér með skriðulum ofanjarðarstönglum.
Gullvölva (Waldsteinia ternata) – Sígræn blaðfalleg planta sem þrífst best í skugga. Hún myndar þéttar breiður og er afar harðgerð.

Aðrar skuggþolnar þekjuplöntur:
(Ath. hér er ekki um tæmandi lista að ræða)
Brúskur (Hosta sp.)
Fagurblágresi (Geranium himalayanum)
Gulltvítönn (Lamium galeobdolon)
Lyfjurtir (Pulmonaria sp.)
Rósalauf (Acaena sp.)
Skildingablóm (Lysimachia nummularia)
Steinbrotar (Bergenia sp.)
Tegundir sem henta vel á sólríkum stöðum:

Músagin (Cymbalaria pallida) – Músagin myndar stórar, þéttar breiður af fjólubláum blómum meira og minna allt sumarið. Tegundin þarf bjartan stað og frekar snauðan jarðveg til að hún dafni sem best.
Rottueyra (Cerastium biebersteinii) – Blöðin eru gráloðin og blómin stór og hreinhvít. Blómstrar í júlí og myndar þá mjallahvítar breiður.
Silfurhnappur (Achillea ptarmica) – Silfurhnappur með fylltum blómum er meira ræktaður en venjulega tegundin með einföldu blómunum. Hann er harðgerður og skriðull og myndar fallegar breiður. Hann blómstrar seint, eða í ágúst-september og fer því vel að rækta hann í beði með snemmblómstrandi tegundum.
Sígrænir hnoðrar (Sedum sp.) – Nokkrar tegundir af hnoðrum eru sígrænar eins og t.d. berghnoðri (Sedum reflexum), urðarhnoðri (Sedum lydium) og helluhnoðri (Sedum acre). Þessar sígrænu tegundir breiða mikið úr sér og mynda fallegar breiður. Þeir eru afar harðgerðir.
Skriðklukka (Campanula rapunculoides) – Skriðklukka blómstrar síðla sumars, bláum klukkum á löngum stönglum. Hún er mjög skriðul og myndar stórar breiður.

Aðrar þekjuplöntur fyrir sólríka staði:
(Ath. þetta er ekki tæmandi listi)
Hrímdjásn (Anaphalis triplinervis)
Kínavöndur (Gentiana sino-ornata)
Rjóðursnotra (Anemone sylvestris)
Sedrusmjólk (Euphorbia cyparissias)
Skógarsnotra (Anemone nemorosa)
Smárar (Trifolium sp.)
Snæbreiða (Hutchinsia alpina)
Ýmsar bláklukkur (Campanula sp.)

. Gróðrarstöðin Storð | Ferjuvegur 1 | 806 Selfoss | Sími 564-4383 | stord@stord.is