Hengiplöntur

RÆKTUN Í KERJUM OG POTTUM

Gleðilegt sumar, góðir garðyrkjuhálsar. Loksins er kominn tími á sorgarrendurnar undir nöglunum, skóför eftir moldug stígvél í forstofunni, strengi í lærunum eftir það að hafa stungið upp kartöflugarðinn og gömul, dauð laufblöð í hárinu eftir vorhreingerninguna í garðinum. Sumarið í ár verður auðvitað litskrúðugt að vanda og að sjálfsögðu reynum við að hola niður blómum hvar sem þess er nokkur kostur. Sumarblóm eru álitlegur kostur því þau vinna fyrir kaupinu sínu með blómskrúði, blómstra út í eitt allt sumarið. Þegar við höfum sett sumarblóm í allar mögulegar og ómögulegar eyður í blómabeðunum er alveg tilvalið að skella þeim í ker og potta. Þá er í rauninn ekkert eftir nema að skreyta veggi húsanna með blómahafi og þar koma hengiplönturnar til sögunnar.
Á undanförnum árum hefur orðið sprenging í framboði á alls kyns hengiplöntum. Þeir sem framleiðslu nýrra sumarblómasorta að atvinnu hafa þarna uppgötvað nýjan markað með óþrjótandi möguleika því stór hluti fólks býr í þannig húsnæði að það hefur ekki aðgang að garði. Íslendingar hafa enn fremur verið iðnir við það að smíða sólpalla í görðum sínum og þar skapast heilmikið veggjapláss á skjólveggjunum.
Þegar plöntur eru ræktaðar í pottum og kerjum þarf að hugsa ívið meira um þær en þegar þær eru settar beint niður í blómabeð. Aðgangur pottaplantnanna að næringu og vatni takmarkast oftar en ekki við það sem mannfólkinu þóknast að láta af hendi rakna. Pottar og ker standa yfirleitt í skjóli upp við húsveggi og þar gætir rigningar lítið sem ekki neitt. Það er því nauðsynlegt að gæta þess að vökva plönturnar og gefa þeim áburð reglulega, sérstaklega þegar líður á sumarið og blómskrúðið verður mikið. Einnig er vert að hafa í huga að plöntur blómstra til þess að mynda fræ. Með því að klípa dauð blóm af plöntunum jafnskjótt og þau fölna má koma í veg fyrir fræmyndunina og halda blómguninni þannig við mun lengur en ella. Engin sérstök vandamál fylgja pottaræktuninni umfram ræktun í blómabeðum, blaðlús gerir vart við sig eftir sem áður og er gott að hafa það í huga að nota ekki eiturefni nema maður sjái kvikindin með berum augum, fyrirbyggjandi úðun hefur ekkert upp á sig.
Hér á eftir fylgir svo örstutt umfjöllun um nokkrar hengiplöntur sem nota má í hvernig ker og potta sem er.
Hengi-brúðarauga (hengi-lóbelía) er landsmönnum að góðu kunn. Blómin eru fremur smá og fást í mörgum bláum litum en einnig eru þessar plöntur til í bleiku eða hvítu. Lóbelíurnar blómstra gríðarlega mikið en þær þurfa mikla vökvun þegar líður á sumarið. Þær má jafnvel rækta í nokkrum skugga.
Hengi-tóbakshorn (Surfinia) eru upprunnin í Japan en þar í landi eru menn einkar duglegir við það að finna spennandi afbrigði til ræktunar enda búa þeir við langa ræktunarhefð. Surfiníurnar eru mun stórvaxnari en venjuleg tóbakshorn og blómstra von úr viti. Blómlitirnir eru hefðbundnir tóbakshornalitir, bleikir og bláir en enn sem komið er hefur engin hárauð Surfinía litið dagsins ljós. Surfiníurnar eru fljótsprottnar og frekar til plássins þannig að það er best að rækta þær einar sér í kerjum eða pottum, aðrar smávaxnari tegundir verða undir í samkeppninni um vaxtarstaðinn. Blómgunin
verður mest og best á björtum stað en þær geta þó komið ágætlega út á skuggsælli stöðum. Gæta þarf að áburðargjöfinni handa Surfiníunum þegar líður á sumarið og er ágætt að vökva þær með venjulegum blómaáburði eins og einu sinni í viku til að halda þeim fallega grænum og sprækum. Ólíkt venjulegum tóbakshornum hefur borið nokkuð á blaðlús á hengi-tóbakshornunum en þó ekki þannig að þær hafi beðið mikinn skaða af.
Hengi-járnurt (Verbena ‘Tapien’ og Verbena ‘Temari’) er þriðja og síðasta tegundin sem minnst verður á hér. Hún er frekar ný af nálinni hér á landi. Blómin eru fremur smá en mörg saman í kollum og eru ýmist bleik eða fjólublá að lit. Járnurtin er blómviljug en þolir illa kulda þannig að ef hitastigið fer niður fyrir 6 °C verða blöð plöntunnar bláleit og hún hættir að vaxa. Á skjólgóðum og hlýjum vaxtarstöðum hefur hún þó komið afar vel út, vaxið vel og blómstrað mikið. Engin sérstök vandamál eru fylgjandi ræktun á hengi-járnurt og hún er ekki vandmeðfarin umfram það sem áður hefur verið minnst á.
Nú er því ekkert annað að gera en að tína fram kerin, körfurnar og pottana og hefja útplöntun hið snarasta.
Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur.

. Gróðrarstöðin Storð | Ferjuvegur 1 | 806 Selfoss | Sími 564-4383 | stord@stord.is