Meðferð vetrargræðlinga I

KLIPPING OG GEYMSLA
Nú fer hver að verða síðastur að klippa og snyrta til trjágróðurinn í garðinum hjá sér fyrir sumarið. Best er að öll vaxtarmótandi klipping á trjágróðri fari fram á meðan plönturnar eru í dvala, bygging plantnanna sést betur og þær verða síður fyrir skakkaföllum af völdum klippingarinnar. Það hefur löngum verið talin ágætis búbót að nýta afklippur af trjágróðri í græðlinga. Heitið vetrargræðlingar er dregið af því að græðlingarnir eru klipptir að vetri til eða mjög snemma vors og eru þeir lauflausir. Ekki er hægt að fjölga öllum trjátegundum með vetrargræðlingum. Víðitegundir og aspir eru einna auðveldastar, rifsrunnum má gjarnan fjölga með vetrargræðlingum og einnig er til í dæminu að taka vetrargræðlinga af hansarós, sýrenum og jafnvel toppum. Vetrargræðlingataka er eins og öll önnur ræktun, ekki er um einn heilagan sannleik að ræða. Því er um að gera að nota ímyndunaraflið og prófa sig áfram með aðrar tegundir ef áhugi á því er fyrir hendi.

Vetrargræðlingar eru, eins og áður segir, klipptir að vetri til en ekki er tímabært að stinga þeim í mold fyrr en frost er farið úr jörðu, í lok maí – byrjun júní. Best er að klippa græðlingaefnið strax niður í heppilegar lengdir, setja dálítinn slatta saman í búnt og bregða teygju utan um það. Því næst er græðlingabúntunum pakkað í plast og þau geymd í kæli eða frysti fram á vorið. Fyrir þá sem ekki hafa óendanlega mikið pláss í ísskápum eða frystikistum má geyma pokana með græðlingabúntunum utan dyra en þá þarf að velja þeim skuggsælan stað í skjóli. Ef græðlingarnir hitna of mikið á meðan á geymslunni stendur er hætta á því að þeir fari að vaxa og fer þá dýrmæt orka til spillis. Glærir pokar eru ágætir ef geyma á græðlingana í kæli eða frysti en þeir sem þurfa að geyma þá utandyra ættu frekar að velja hvíta plastpoka. Það dregur úr hættunni á því að hitni í pokunum, hvíta plastið hitnar ekki mikið ef sólin skín á það og skyggir vel á græðlingana sem eru undir því.

Lengd græðlinga fer mikið eftir því um hvaða tegund er að ræða og hvort stinga á græðlingunum beint í beð eða í potta. Óhætt er að hafa græðlinga sem stinga á í beð töluvert lengri en græðlinga sem stinga á í potta. Vetrargræðlingar af grófgerðum víði, t.d. alaskavíði, tröllavíði, hreggstaðavíði og viðju er ágætt að hafa 20 – 25 cm langa. Græðlingar af fíngerðari víði eins og brekkuvíði og strandavíði mega gjarnan vera 15 – 20 cm langir. Ýmsar víðitegundir eru aðallega ræktaðar sem skrautrunnar og er slíkum græðlingum yfirleitt stungið beint í potta. Í þeim hópi eru bjartvíðir, reklavíðir, grávíðir og jafnvel loðvíðir. Þessir græðlingar þurfa ekki að vera lengri en 10 – 15 cm.

Aspargræðlingar sem stinga á í beð mega gjarnan vera 20 – 25 cm langir en ef þeim er stungið í potta þurfa þeir ekki að vera lengri en 10-15 cm eða með 2 – 3 góð brum.

Við klippingu á græðlingunum er mikilvægt að gæta þess að velja einungis gott efni. Græðlingarnir þurfa að vera vel safaspenntir og ekki of grannir. Með því að reyna að beygja græðlingana má auðveldlega sjá hvort þeir eru nógu safaspenntir. Ef þeir svigna auðveldlega eru þeir og linir og slíkir græðlingar ná ekki að mynda rætur eftir stungu. Sverleiki græðlinganna skiptir einnig máli. Ekki er talið gott að nota græðlinga sem eru mikið grennri en venjulegur blýantur. Of grannir græðlingar innihalda ekki nógu mikinn forða til að geta myndað rætur fljótt og vel.

Þegar teknir eru græðlingar af víði og ösp má nota svo að segja allt tréð í græðlinga. Árssprotarnir, þ.e. greinarnar sem uxu fram síðasta sumar, eru einna fljótastir að mynda rætur en eldri og þykkari greinar eru einnig mjög gott græðlingaefni. Við græðlingatöku á öðrum tegundum, eins og rifsi og hansarós, þarf hins vegar að gæta þess að nota árssprotana. Þó er til í dæminu að tveggja ára gamall viður geti myndað rætur en ekki er gott að treysta á það.

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur.

. Gróðrarstöðin Storð | Ferjuvegur 1 | 806 Selfoss | Sími 564-4383 | stord@stord.is