Alaskaösp

ALASKAÖSP – Populus trichocarpa

Gönguferð um asparskóg eftir rigningarskúr á vorin er upplifun fyrir öll skilningarvit. Asparilmurinn fyllir öll vit, ferskur og grænn og engu líkur, það er helst að íslenska birkið veiti öspinni samkeppni á þessu sviði. Hvers vegna hefur enginn fundið leið til þess að tappa þessari angan á flöskur og selja dýrum dómum? Sá hinn sami yrði moldríkur á augabragði.

Alaskaösp, Populus trichocarpa, á ættir sínar að rekja vestur um haf, nánar tiltekið til Alaska og suður með vesturströnd Norður-Ameríku, allt niður til Kaliforníu. Fyrir ættfræðiáhugamenn má geta þess að öspin er af víðiættinni, Salicaceae og því náskyld hinum fjölmörgu víðitegundum sem ræktaðar eru á Íslandi. Alaskaösp getur orðið verulega hávaxið tré í heimkynnum sínum, í Alaska og norðarlega á útbreiðslusvæði sínu verður hún 25-30 m há en þegar sunnar dregur getur hún náð allt að 60 m hæð. Til gamans má geta þess að eitt af hæstu trjám á Íslandi er einmitt alaskaösp í Múlakotsgarðinum, rúmlega 20 m há planta. Aspir eru ýmist kvenkyns eða karlkyns og er hægt að greina muninn milli kynjanna á vorin þegar þær blómstra. Blómgunartími aspa er á vorin rétt fyrir laufgun. Karlplantan fær 5-8 cm langa, fallega rauða rekla sem minna talsvert á chilipipar en reklar kvenplöntunnar eru ekki eins skrautlegir, eru fremur grænleitir en ívið lengri en karlreklarnir. Aldin aspanna eru pínulítil fræhýði þakin löngum, hvítum hárum sem gera þeim kleift að berast langar leiðir með vindinum. Fræfall er mismikið milli ára en í góðu fræári getur orðið alhvít jörð í næsta nágrenni fræfellandi plöntu og það um miðjan júlí.

Alaskaösp hefur verið ræktuð á Íslandi í tæp 60 ár. Fyrstu græðlingarnir komu til landsins árið 1944 og komust þeir í kynni við íslenskan jarðveg austur í Múlakoti í Fljótshlíð. Þessir græðlingar voru ættaðir af Kenaiskaga og einnig þeir græðlingar sem fluttir voru inn árið 1950. Asparplönturnar döfnuðu vel og uxu hratt og örugglega allt fram að aprílhretinu ógurlega árið 1963. Alaskaösp er dæmigerð fyrir plöntur sem lifa í meginlandsloftslagi þar sem vetur eru kaldir og það er í raun vetrarkuldinn sem heldur plöntum í dvala en ekki innbyggð hormónahvíld í plöntunum sjálfum. Vorið 1963 var óvenju hlýtt og allur gróður tók mjög snemma við sér, margar tegundir voru orðnar laufgaðar í byrjun apríl. Þann 9. apríl brá þó heldur betur til tíðinda, á nokkrum klukkutímum féll hitastigið úr rúmum 10°C niður í um –10°C. Afleiðingarnar urðu þær að flestallar alaskaaspir á Suðurlandi kólu niður í rót auk margar aðrar trjá- og runnategundir fóru illa í hretinu. Á næstu árum komu upp rótarskot af rótum gömlu aspanna og eru þessi rótarskot uppistaðan í elstu öspum á Suðurlandi í dag, meðal annars stóru aspanna í Múlakoti.
Í kjölfar hretsins, um haustið 1963, var gerður út leiðangur til Alaska gagngert til þess að safna nýjum asparkvæmum og klónum af fleiri svæðum en Kenaiskaga. Kvæmin voru merkt með tölustafnum C og númerum frá 1 til 15 eftir söfnunarstað og klónarnir voru auk þess númeraðir. Smám saman komust menn að því hvaða klónar standa sig best við íslenskar aðstæður og hafa þeir verið nefndir með klónsheitum, t.d. Keisarinn, Pinni, Salka, Haukur, Iðunn og Brekkan.

Andstætt því sem víða hefur verið haldið fram þá eru aspir ekki illa innrættar. Þær bíða ekki færis eftir því að geta eyðilagt lagnakerfi húsa eða vaxa inn í skolplagnir af einskærri illkvittni. Aspir vaxa hratt og verða stór og mikil tré sem þurfa rakan og næringarríkan jarðveg. Ef slíkt er ekki í boði í grennd við stofn trésins leita ræturnar einfaldlega annað. Rótakerfi aspar er grunnstætt og hefur þess vegna, eins og dæmin sanna, farið illa með hellulagnir og malbik en allt kemur þetta til vegna þess að aspirnar fá ekki nóg að éta heima hjá sér.

Andstæðingar aspa hafa aldeilis fengið vatn á myllu sína á undanförnum árum. Nú er kominn upp ryðsveppur sem hefur leikið aspartré grátt. Sveppur þessi hefur lerki sem millihýsil og hefur aðallega látið til sín taka á Suðurlandi. Sérfræðingar hafa ekki komið fram með neinar heppilegar leiðir til að kveða sveppinn í kútinn og verða asparræktendur því bara að bíða og sjá hvort plönturnar hrista þessa óværu af sér. Ljóst er að garðyrkjumenn munu fylgjast grannt með asparklónunum og viðbrögðum þeirra við sveppnum og munu í framtíðinni væntanlega einbeita sér að því að rækta plöntur sem sýna mótstöðu gegn sveppnum en láta hinar lönd og leið.

Fá tré standa öspinni á sporði varðandi vaxtarhraða við íslenskar aðstæður. Þær spretta hreinlega upp eins og gorkúlur. Þetta er lykillinn að vinsældum þeirra hjá Íslendingum sem vilja helst sjá hlutina gerast í gær. Þær hafa vissulega sett svip sinn á garða í þéttbýli en í raun eru þetta ekki heppilegar í litla garða. Sumarbústaðalönd, útivistarsvæði og opin svæði eru kjörlendi fyrir aspir því þar fá þær nóg pláss og skyggja ekki á sólpalla eða stofuglugga. En… ilmurinn er indæll!

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur.

. Gróðrarstöðin Storð | Ferjuvegur 1 | 806 Selfoss | Sími 564-4383 | stord@stord.is