Gullregn

GULLREGN– Laburnum

Fá garðtré í ræktun á Íslandi eru jafn glæsileg í blóma og gullregnið. Heiðgulir blómklasarnir lýsa upp umhverfið og geta jafnvel bætt garðeigendum upp sólarleysi þegar svo ber við. Gullregn eru af ertubaunaættinni, Fabaceae og eru því skyld merkilegum plöntum eins og lúpínunni. Plöntur af þessari ætt eru með sambýli við niturbindandi bakteríur á rótinni en bakteríur þessar binda köfnunarefni (N) úr andrúmsloftinu. Köfnunarefni er eitt af mikilvægustu næringarefnum plantna og eru plöntur ertubaunaættarinnar því komnar vel á veg í sjálfsþurftabúskapnum. Bakteríurnar láta plöntunum köfnunarefni í té í skiptum fyrir sykrur og önnur næringarefni sem plönturnar taka annars vegar upp úr jarðvegi og framleiða hins vegar sjálfar með ljóstillífun.

Innan Laburnum ættkvíslarinnar eru tvær tegundir sem þrífast villtar í náttúrunni. Þær eru fjallagullregn, Laburnum alpinum og strandgullregn, Laburnum anagyroides. Báðar þessar tegundir eiga heimkynni sín í Mið- og Suður-Evrópu. Hér á landi hefur fjallagullregnið verið ræktað um áratugaskeið og reynst harðgert og blómviljugt. Munurinn milli þessara tegunda er einkum fólginn í vaxtarlaginu. Fjallagullregnið getur orðið allt að 10 m hátt hérlendis en strandgullregnið, sem er nú sjaldséð á Íslandi, er mun minna, einungis 5-6 m á hæð. Blóm fjallagullregns eru minni og dekkri á lit en blóm strandgullregns en blómklasar fjallagullregnsins eru lengri. Aldin gullregna eru fræbelgir sem innihalda dökk, nærri því svört fræ. Fjallagullregn er yfirleitt margstofna og getur króna trésins orðið mjög umfangsmikil. Gullregn vilja fremur sendinn jarðveg og er nauðsynlegt að gróðursetja þau á sólríkan stað í garðinum ef þau eiga að blómstra mikið og vel.

Plöntur eiga ekki gott með að taka til fótanna ef voða ber að greinum. Þær hafa því þróað aðrar aðferðir til að bregðast við áreiti af ýmsum toga. Gullregn framleiðir annars stigs efni af flokki alkaloida og eru þessi efni eitruð. Efni þessi eru aðallega staðsett í berki og fræjum þótt öll plantan sé í raun eitruð. Af þessum sökum er ekki talið mjög heppilegt að leggja sér gullregn til munns. Eitrun af völdum gullregnsáts getur meðal annars komið fram sem sviði í munni, uppköst, niðurgangur, kaldur sviti, höfuðverkur, útvíkkuð sjáöldur, svimi og öndunarerfiðleikar. Í nágrannalöndum okkar eru þekkt ýmis dæmi um eitrun í húsdýrum en sem betur fer er slíkt sjaldgæft. Börn eru oft spennt fyrir því að smakka það sem náttúran hefur upp á að bjóða og eru því í sérstökum áhættuflokki gagnvart gullregni. Það verður þó að segjast eins og er að börn í íslensku umbúðaþjóðfélagi eru ekki líkleg til að leggjast á beit í gullregnið, fræbelgirnir eru loðnir og lítt spennandi til átu. Þó er full ástæða til að vara börn við því að leggja sér fræin til munns, talið er að 2 fræ séu nóg til að framkalla eitrunareinkenni. Öllu er haganlega fyrir komið í náttúrunni, gullregnið passar upp á fræin sín með því að gera þau óæt og tryggir þannig afkomu tegundarinnar. Önnur afleiðing eiturefnaframleiðslunnar er sú að mjög lítið er um óboðna gesti á borð við skorkvikindi á gullregni.

Til er blendingur milli strandgullregns og fjallagullregns sem ýmist er kallaður garðagullregn eða blendingsgullregn, Laburnum x watereri. Blendingsgullregn sameinar helstu kosti beggja foreldra sinna, blómklasarnir eru langir eins og hjá fjallagullregni og blómin stór eins og hjá strandgullregni. Yrkið Laburnum x watereri ‘Vossi’, sem er upprunnið í Hollandi um 1875, er sérstaklega verðmæt garðplantna. Það er ágrætt og blómstrar því strax en fjallagullregn blómstrar ekki fyrr en það verður kynþroska allt að 15-20 ára gamalt. Blómklasar ‘Vossii’ yrkisins geta orðið allt að 50 cm langir. Einn af aðalkostum blendingsgullregns er sá að það myndar örsjaldan fræ og þá einungis örfá í einu en fræin eru einmitt eitraðasti hluti gullregna.

Nokkuð hefur borið á því að gullregn lifna seint og illa á vorin, sum bæra jafnvel ekki á sér fyrr en langt er liðið á sumar. Svo virðist sem kuldakast á þeim tíma þegar brumin eru að byrja að þrútna, frá miðjum maí fram í byrjun júní, hreki plönturnar aftur í vetrardvala og tekur það þær nokkrar vikur að hrista af sér dvalaslenið. Plöntur sem lifna svona seint geta vissulega orðið fyrir haustkali en það virðist ekki vera alvarlegt.

Gullregn eru stórglæsileg tré og ættu vera í sem flestum görðum. Óþolinmóðir garðeigendur á barneignaraldri geta valið sér blendingsgullregn sem blómstrar strax og er ófrjótt en þeir sem vilja taka lífinu með ró geta setið í skugga fjallagullregnsins og beðið eftir blómunum.

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur

. Gróðrarstöðin Storð | Ferjuvegur 1 | 806 Selfoss | Sími 564-4383 | stord@stord.is