Tungumál garðyrkjunnar

Garðplöntustöðvar og aðrir söluaðilar garðplantna af ýmsum stærðum, gerðum og uppruna kappkosta við það að kynna vörur sínar fyrir viðskiptavinum. Sölusvæði þessara aðila eru morandi í alls kyns upplýsingum um plöntur. Þar má lesa um ætt og uppruna tegundanna, hæð, blómlit, blómgunartíma, hvernig vaxtarstað plönturnar þurfa auk annarra nytsamra upplýsinga sem seljandinn vill koma á framfæri. Áhugasamir garðeigendur geta enn fremur fengið í hendurnar plöntulista þar sem útlistaðir eru kostir hinna ýmsustu garðplantna og þannig tekið ákvörðun um það hvað kaupa skuli, næst þegar plöntusalinn er heimsóttur. Upplýsingar sem þessar eru í nokkuð stöðluðu formi en það er ekki þar með sagt að þær séu endilega auðskiljanlegar leikmönnum í garðyrkjunni. Jafnframt þarf að gera ráð fyrir því að hagsmunir seljanda og kaupanda fara ekki alltaf saman, seljandinn þarf jú að losna við vöruna. Þess vegna ætti eftirfarandi orðskýringalisti að koma væntanlegum kaupendum garðplantna í góðar þarfir. Algengar upplýsingar úr plöntulistum birtast hér feitletraðar en raunveruleg merking þeirra fylgir í kjölfarið...

Þarf sólríkan stað: Þrífst ágætlega við Miðjarðarhafið
Þarf sólríkan stað og skjól: Þrífst eingöngu í gróðurhúsum
Dálítið viðkvæm planta: Drepst örugglega þegar hitastigið fer undir 20°C
Sáir sér dálítið: Leggur undir sig heilu hverfin á einu sumri
Góð þekjuplanta: Kæfir allt sem á vegi hennar verður
Dálítið skriðul: Kæfir allt sem á vegi hennar verður
Kraftmikil og dugleg: Kæfir allt sem á vegi hennar verður
Steinhæðaplanta: Þrífst ekki nema á fjöllum
Þokkafull planta: Best að kaupa uppbindigræjur í massavís
Með bogsveigðar greinar: Blómin liggja í drullunni
Fínleg og smávaxin: Pínulítil og ómerkileg, svokölluð sést-varla-planta
Ilmar dálítið: Ilmar hreint ekki neitt
Ilmar sérkennilega: Hræðileg kattahlandfýla, nefklemma ætti að fylgja með
Ilmar mikið: Ilmur er auðvitað afstætt hugtak...
Harðgerð: Lifir ef öllum kröfum um sól, skjól, rakastig, jarðveg, framræslu, hitastig og skugga er fullnægt
Blómviljug: Blómstrar ef öllum kröfum um sól, skjól, rakastig, jarðveg, framræslu, hitastig og skugga er fullnægt
Örugg: Ódrepandi illgresi
Sjaldgæf tegund: Erfið í fjölgun og enn erfiðara að halda lífi í henni í görðum
Ný tegund í ræktun: Seld helmingi dýrara en sambærilegar plöntur þar til keppinautarnir geta boðið upp á þessa tegund líka
Takmarkað framboð: Seld þrefalt dýrara en sambærilegar plöntur
Gerir ekki sérstakar kröfur til jarðvegs: Algjör arfi
Skuggþolin: Hundljót planta sem best er að rækta þar sem enginn sér hana
Lágvaxin og vindþolin: Þessi setning selur allar plöntur því íslenskir viðskiptavinir vilja ekkert annað
Hægvaxta: Neikvæð vaxtaraukning milli ára
Hraðvaxta: Þarf klippingu á nokkurra daga fresti
Blaðfalleg: Blómstrar ekki nema tíunda hvert ár
Þarf rakan jarðveg: Vex eingöngu í tjörnum
Seltuþolin: Hentar vel í fjörum
Af þessu er ljóst að garðeigendur ættu að fara varlega í að trúa hverju sem er þegar kemur að plöntulýsingum, kannski þeir ættu bara að ráðfæra sig við fagmenn?

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur

. Gróðrarstöðin Storð | Ferjuvegur 1 | 806 Selfoss | Sími 564-4383 | stord@stord.is